Leikararnir Josh Brolin, John Hawkes, Jake Gyllenhaal og Jason Clarke eiga allir í viðræðum um að leika stór hlutverk í fjallgöngumyndinni Everest sem leikstýrt verður af Baltasar Kormáki.
Samkvæmt Deadline kvikmyndavefnum þá er það Baltasar sjálfur sem er nú að stilla upp leikaraliðinu fyrir myndina, en hann hyggst samkvæmt vefsíðunni, hefja tökur í nóvember nk.
Næsta Hollywood mynd Baltasars til að verða frumsýnd er myndin 2 Guns, en hún verður frumsýnd 2. ágúst nk. og er með Mark Wahlberg og Denzel Washington í aðalhlutverkum.
Everest segir söguna af hörmulegri ferð sem farin var árið 1996 á hæsta fjall í heimi, Everest. Þrír fjallgöngleiðangrar lentu í óveðri og áður en yfir lauk voru átta fjallgöngumenn látnir. Margir þekkja þessa sögu úr bók Jon Krakauer, Into Thin Air, sem gerð var kvikmynd eftir, þar sem hann sagði söguna af ferðinni og hvernig þeir hinir heppnu komust lífs af úr hildarleiknum.
Everest verður unnin upp úr nokkrum bókum og viðtölum við eftirlifendur.