Baltasar hafnaði Fast 7

Baltasar_Kormakur_Reykjavik_rotterdamLeikstjóranum Baltasar Kormáki standa nú allar dyr opnar í Hollywood eftir velgengni mynda hans Contraband og 2 Guns. Baltasar segir í samtali við Fréttablaðið að honum hafi til dæmis verið boðið að leikstýra nýjustu Fast & the Furious myndinni. „Ég fékk til dæmis boð um að leikstýra Fast & the Furious 7 en ég hafnaði því. Ég hafði einfaldlega ekki áhuga. Það er mjög góð tilfinning að vera í þeirri stöðu að segja nei. Ég vil gera verkefni sem vekja áhuga minn. Ég vil fara í metnaðarfyllri verkefni. Það er frábær staða að fá þessi boð en maður getur fest í því að gera risamyndir og það er lúppa sem maður kemst ekki auðveldlega út úr. Það er eins og að taka í höndina á djöflinum. Maður selur sig allan. Það er gott að finna hitann og verma sig við hann en ég forða mér áður en ég brenni mig. Ég vil ekki gera eitthvað sem gerir mömmu ekki stolta af mér og auðvitað vill maður að fólkið í kringum mann sé ánægt með það sem maður er að gera,“ sagði Baltasar í samtali við blaðið.