Baldwin snýr aftur í Stubbur stjóri 2

Stubbur stjóri, eða Boss Baby eins og teiknimyndin heitir á frummálinu, er enn í bíó hér á Íslandi, en nú þegar hafa Dreamwork Animation boðað að framhaldsmynd sé á leiðinni.  Tekjur myndarinnar á heimsvísu eru nú orðnar meira en hálfur milljarður bandaríkjadala, og því kemur ekki á óvart að ákveðið hafi verið að gera framhald.

Alec Baldwin mun snúa aftur í aðalhlutverkinu, sem rödd Stubbs, og stefnt er að frumsýningu myndarinnar 26. mars árið 2021.

Fyrsta myndin segir frá töffaranum Stubbi sem fæðist með allt á hreinu og klár í hvern þann slag sem lífið býður upp á. En fyrst þarf hann ásamt sjö ára bróður sínum og nokkrum öðrum hvítvoðungum að stöðva skæðustu samkeppniskrútt allra barna – hvolpana.

Auk Stubbs stjóra 2, þá eru Dreamworks Animation með nokkur önnur verkefni í vinnslu, og það fyrsta sem lítur dagsins ljós er Captain Underpants: The First Epic Movie, sem kemur í bíó í Bandaríkjunum 2. júní nk. Hún segir frá tveimur hrekkjalómum, sem Kevin Hart og Thomas Middleditch tala fyrir, sem dáleiða grimmlyndan skjólastjóra, sem Ed Helms leikur, og breyta honum í hina ljúfu og teygjanlegu teiknimyndapersónu Captain Underpants.