Ævintýrafár í Hollywood

Nú virðist nýjasta tískubólan í Hollywood vera að taka fyrir gömul ævintýri og gera úr þeim leiknar myndir.

Francis Lawrence ætlar að takast á við Mjallhvíti og gera úr henni kínverska bardagamynd. Mjallhvít verður að breskri stelpu sem elst upp í Hong Kong á 19. öld og uppgötvar að örlög hennar séu að berjast við ill öfl. Hún undirbýr sig fyrir bardagann með því að fara í stífa þjálfun hjá sjö Shaolin munkum.

Það verður líka flikkað upp á Jóa og baunagrasið. Wallace Shawn, sem lék sikileyska kaupmanninn í The Princess Bride, mun leika veðmangara sem selur Jóa galdrabaunirnar. Ungstirnið Colin Ford leikur Jóa og Katey Sagal, húsmóðirin úr sjónvarpsþáttaseríunni Married With Children, leikur mömmu hans. Rúsínan í pylsuendann er svo Chevy Chase sem leikur vörslumann í völundarhúsinu sem Jói þarf að fara í gegnum á leið sinni til risans. Þá er einnig verið að reyna að fá James Earl Jones til að ljá risanum sjálfum rödd sína.