Avengers frumsýnd á sumardaginn fyrsta

avengers-age-of-ultronNýjasta myndin frá Marvel, Avengers: Age of Ultron, verður frumsýnd hér á landi á fimmtudaginn, sumardaginn fyrsta.

Þegar Tony Stark reynir að endurvekja gamalt friðarprógram leysir hann um leið úr læðingi vélskrímslið Ultron sem á sér bara eitt markmið og einn tilgang: Að útrýma mannkyninu í eitt skipti fyrir öll.

Avengers-myndin sem frumsýnd var árið 2012 varð vinsælasta mynd þess árs og er fastlega búist við að Age of Ultron eigi eftir að verða vinsælasta mynd ársins 2015, enda hefur í engu verið til sparað til að gera myndina sem allra best úr garði.

Leikstjóri er sem fyrr Joss Whedon og til baka snúa allir leikarar fyrri myndarinnar í hlutverkum sínum sem Avengers-ofurhetjurnar auk þess sem nokkrir bætast við, þar á meðal Aaron Taylor-Johnson sem hinn ofurhraði Quicksilver og Elizabeth Olsen sem Scarlet Witch. Með hlutverk Ultrons fer svo James Spader og segir orðrómurinn að honum hafi tekist alveg einstaklega vel upp við að leika hið illa vélskrímsli.

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri, Smárabíó, Laugarásbíó, Selfossbíó, Ísafjarðarbíó, Króksbíó og Bíóhöllin Akranesi