Aulinn ég tekjuhæsta sería allra tíma

Aulinn ég ( Despicable Me ) kvikmyndaserían er komin fram úr Shrek, og er orðin tekjuhæsta teiknimyndasería allra tíma.

Eftir góða kvikmyndaaðsókn á þriðju myndina nú um helgina, Aulinn ég 3, þá er serían búin að ná inn 3,528 milljörðum bandaríkjadala í tekjur, og brunar þar með fram úr Shrek, en heildartekjur af Shrek seríunni nema 3,51 milljarði dala.  Með í þeim útreikningum er hliðarmyndin um stígvélaða köttinn, Puss in Boots, sem er ein af aðalpersónum Shrek myndanna.

Með í útreikningum fyrir Aulinn ég seríuna eru allar þrjár myndirnar, auk velheppnaðrar forsögu frá árinu 2015, þar sem Skósveinarnir ( Minions ) fengu sína eigin kvikmynd. Sú mynd er nú önnur best sótta teiknimynd allra tíma, næst á eftir hinni gríðarvinsælu Frozen frá Disney.

Samkvæmt Deadline vefnum þá námu tekjur fyrstu Aulinn ég myndarinnar, sem var frumsýnd árið 2010, 546 milljónum dala. Hin Óskarstilnefnda önnur mynd seríunnar, sem kom í bíó árið 2013,  gerði enn betur, en tekjur hennar námu 607,7 milljónum dala.

Minions urðu svo aðsóknarmesta teiknimynd síðasta árs, en Aulinn ég 3, sem er enn í bíó hér á landi, er nú komin með 879,5 milljónir dala í tekjur.

Þar sem Aulinn ég 3 er enn í sýningum víða um heim, og Skósveinarnir 2 í undirbúningi, er líklegt að met seríunnar muni enn halda áfram að styrkjast í sessi.

Með helstu hlutverk í Aulinn ég seríunni fara Steve Carell, Kristen Wiig og Sandra Bullock.

Þær þrjár aðrar teiknimyndaseríur sem koma á eftir Aulanum ég og Shrek á lista yfir aðsóknarmestu teiknimyndaseríurnar eru Ice Age, Madagascar og Toy Story.