Ætlaði Hitchcock að gera grínmyndir?

Dan Fogler úr Balls of Fury hefur tekið að sér að leika Alfred Hitchcock í Number 13, spennutrylli með grínívafi.

Myndin tekur fyrir tvær vikur í lífi leikstjórans við upphaf ferils hans. Í myndinni er Hitchcock nýbúinn að gera fyrstu kvikmyndina sína sem á að vera grínmynd, en hún er ekkert fyndin svo að hann breytir henni í spennutrylli. Fyrsta kvikmyndin sem Hitchcock gerði í raun og veru heitir einmitt Number 13, en hann náði aldrei að klára hana og hvorki upptökurnar né handritið hafa nokkurn tímann fundist. Hitchcock var ávallt tregur til að tala um þessa frumraun sína í leikstjórastólnum.