Zack Snyder, leikstjóri ofurhetjumyndarinnar Justice League, birti nýtt myndband í vikunni sem sýnir leikarann Jason Momoa í hlutverki sínu sem Aquaman, á sundi neðansjávar.
Justice League kemur í bíó síðar á þessu ári, og margir bíða spenntir eftir myndinni, sem var að hluta til tekin upp hér á Íslandi, og nokkrir Íslendingar koma við sögu.
Nokkrir mánuðir eru síðan birt var kitla á afþreyingarhátíðinni Comic Con í San Diego í Kaliforníu, en engin stikla í fullri lengd hefur enn litið dagsins ljós. Myndin af Momoa kemur úr kynningarefni frá Snyder, þegar hann var að sýna tæknibrellurnar í myndinni.
Í myndbandinu sést Arthur Curry, öðru nafni Aquaman, synda upp að styttu sem er íklædd herklæðum sem Aquaman hefur klæðst í öðru kynningarefni myndarinnar.
Söguþráður myndarinnar er eftirfarandi: „Eftir að hafa fengið á ný trú á mannkynið, og innblásinn af fórnfýsi Superman, þá kallar Bruce Wayne á bandamann sinn Diana Prince, til að mæta enn stærri óvini. Saman þá safna þau Batman og Wonder Woman saman enn stærri hópi ofurhetja, Aquaman, Cyborg og The Flash, en það gæti nú þegar verið orðið of seint að bjarga heiminum.“
Með helstu hlutverk í myndinni fara þau Ben Affleck sem Batman, Henry Cavill sem Superman, Gal Gadot sem Wonder Woman, Jason Momoa sem Aquaman, Ezra Miller sem The Flash, Ray Fisher sem Cyborg, Amy Adams sem Lois Lane, Willem Dafoe sem Nuidis Vulko, Jesse Eisenberg sem Lex Luthor, Jeremy Irons sem Alfred Pennyworth, Diane Lane sem Martha Kent, Connie Nielsen sem Queen Hippolyta og J.K. Simmons sem Commissioner Gordon.
Kvikmyndin er væntanleg í bíóhús 17. nóvember nk.
Kíktu á myndbandið hér fyrir neðan:
This is video is for the many people who do not have access to the app where @ZackSnyder posts content
SUPPORT @verosocial BY SIGNING UP! pic.twitter.com/dpgmp981Gm— #RESIST Lupe (@theLupeXperienc) March 1, 2017