Marvel framleiðslufyrirtækið, sem er í eigu Disney, tilkynnti í gær að ofurhetjumyndin Ant-Man and the Wasp muni koma í bíó í júlí 2018. Tilkynnt var einnig um frumsýningar tveggja annarra mynda við sama tilefni; Black Panther, sem kemur í bíó 16. febrúar 2018, og Captain Marvel, sem kemur í bíó 8. mars 2019.
Þá mun fyrirtækið frumsýna þrjár óskilgreindar myndir til viðbótar árið 2020, eða 1. maí, 10. júlí og 6. nóvember.
Eins og segir í frétt Mowieweb.com þá er Marvel mjög íhaldssamt á frumsýningardaga, en nær hver einasta Marvel mynd hefur verið frumsýnd annaðhvort í maí, júlí eða nóvember, með þremur undantekningum; The Incredible Hulk (13. júní 2008), Captain America: The Winter Soldier ( 4. apríl, 2014) og Guardians of the Galaxy ( 1. ágúst 2014).
Með þessum þremur nýju myndum eru núna 10 nafngreindar og staðfestar myndir væntanlegar frá fyrirtækinu á aðeins þremur árum; Captain America: Civil War (6. maí , 2016), Doctor Strange ( 4. nóvember, 2016), Guardians of the Galaxy Vol. 2 ( 5. maí, 2017), Thor: Ragnarok ( 3. nóvember, 2017), Black Panther ( 16. febrúar, 2018), Avengers: Infinity War Part I ( 4. maí, 2018), Ant-Man and The Wasp ( 6. júlí, 2018), Captain Marvel ( 18. mars, 2019), Avengers: Infinity War – Part II ( 3. maí, 2019) og Inhumans ( 12. júlí, 2019).