Ameríka elskar Captain America

Það er engum blöðum um það að fletta að Captain America: Civil War er vel heppnuð ofurhetjumynd, enda er hún nú aðra vikuna í röð á toppi bandaríska aðsóknarlistans. Myndin þénaði 179,1 milljón Bandaríkjadali um síðustu helgi og var lang aðsóknarmest einnig þessa aðra helgi sína í sýningum með 72,5 milljónir dala í tekjur. Þetta þýðir að myndir sem frumsýndar voru nú um helgina, Jodie Foster myndin Money Monster og hrollvekjan The Darkness, voru langt frá því að velta ofurhetjuhernum úr sessi, eins og sést á áætluðum aðsóknartölum helgarinnar hér fyrir neðan:

box

 

Líkur eru á að myndin fari yfir eins milljarðs Bandaríkjadala markið í næstu viku.

Myndin hefur þénað 295,8 milljónir dala í Bandaríkjunum og 645 milljónir utan Bandaríkjanna.  Rífandi hagnaður er af myndinni þar sem kostnaðurinn var 250 milljónir dala. Myndin er nú þegar orðin sjöunda aðsóknarmesta mynd Marvel í Bandaríkjunum og sú fjórða tekjuhæsta þegar litið er til tekna um allan heim.

Aðsóknarmesta Marvel myndin til þessa er The Avengers frá árinu 2012 með 623,3 milljónir dala í tekjur í Bandaríkjunum og 1,5 milljarð dala samtals um heim allan.