Alvöru jaðarsport í Point Break

Leikstjórinn Ericson Core fékk raunverulega jaðaríþróttamenn til að leika í væntanlegri endurgerð Point Break svo að áhættuatriðin yrðu sem raunverulegust.

Meðal annars klifruðu þeir í hættulegum klettum, léku sér á brimbrettum í risastórum öldum og svifu um loftin blá í svifbúningum, eins og sjá má í meðfylgjandi stiklu.

Um er að ræða endurgerð á samnefndri spennumynd frá árinu 1991 þar sem Keanu Reeves og Patrick Swayze voru í aðalhlutverkum.

Luke Bracey leikur FBI-fulltrúann Johnny Utah sem reynir að kynnast hópi sem stundar áhættusamt jaðarsport, sem grunur leikur á um að hafi staðið á bak við röð óvenjulegra glæpa.

point break

Til þess að öðlast traust hópsins þarf hann að verða hluti af honum en um leið þarf hann að sanna að glæpamenn séu á ferðinni.

Á meðal annarra leikara í Point Break eru Édgar Ramírez, Ray Winstone, Teresa Palmer og Delroy Lindo.