Enn er að bætast í leikarahópinn fyrir X-Men: Days of Future Past, en söguþræðir og leikarahópar bæði X-Men þríleiksins upprunalega og X-Men: First Class munu renna saman í þessari nýju mynd.
Nú hefur verið sagt frá því að Alan Cumming snúi aftur í hlutverki hins feimna en minnisstæða rýmisferðalangs ( teleporter ) Nightcrawler, sem birtist á nýjum og nýjum stöðum án fyrirvara.
Sá sem upplýsti um þetta var sjálfur Prófessor X, sem leikinn er af James McAvoy.
Það var vefsíðan Digital Spy sem vakti athygli á þessum nýju upplýsingum sem komu fram í viðtali sem útvarpsstöðin Heat Radio átti við McAvoy en þar taldi hann Cumming með í leikarahópi X-Men: Days of Future Past.
McAvoy segir frá þessu í kringum mínútu 4.44 í hljóðdæminu hér að ofan.
Að Alan Cumming meðtöldum þá eru staðfestir leikarar í myndina þau Halle Berry (Storm), Patrick Stewart (Professor X), Ian McKellen (Magneto), Hugh Jackman (Wolverine), Anna Paquin (Rogue), Shawn Ashmore (Ice Man), og Ellen Page (Kitty Pryde) úr upprunalega þríleiknum, en James McAvoy (Professor X), Michael Fassbender (Magneto), Jennifer Lawrence (Mystique) og Nicholas Hoult (Beast) úr X-Men: First Class.
Einnig hafa nýliðar bæst við eins og við höfum sagt frá hér á síðunni, en þeir eru Peter Dinklage úr Game of Thrones og stjarnan úr myndinni The Intouchables, Omar Sy.
Leikstjóri er Bryan Singer.
Áætlað er að frumsýna X-Men: Days of Future Past þann 18. júlí 2014. Tökur eiga að hefjast innan fárra mánaða.