Áhugi sem þróaðist yfir í þráhyggju

grafirogÍslenska hryllingsmyndin Grafir og Bein verður frumsýnd þann 31. október næstkomandi. Björn Hlynur Haraldsson og Nína Dögg Filippusdóttir fara með aðalhlutverkin ásamt Elvu Maríu Birgisdóttur.

Anton Sigurðsson leikstýrir og er þetta hans fyrsta kvikmynd í fullri lengd. Anton hefur áður leikstýrt stuttmyndum og gerði hann m.a. samnefnda stuttmynd sem byggði á sama efni. Anton segir að ferlið hafi þróast hratt eftir að stuttmyndin var gerð og var þegar í stað stefnt að kvikmynd í fullri lengd.

,,Fljótlega stækkaði sagan og svo kom Björn Hlynur og Nína Dögg inn í ferlið og þá varð þetta alltaf stærra og stærra og dýrara og dýrara,“ segir Anton.

Grafir og Bein fjallar um hjón sem missa dóttur sína og flytja í afskekkt hús til þess að annast frænku sína eftir að foreldrar hennar deyja á furðulegan hátt. Þegar komið er í húsið fara undarlegir hlutir að gerast. Svefnlausar nætur, dularfullt fólk sem heimsækir þau og ótrúlegir hlutir sem þau upplifa í veru sinni í húsinu sem er reimt.

Anton er einn sá yngsti sem leikstýrt hefur kvikmynd í fullri lengd, aðeins 27 ára gamall. Áhuginn á kvikmyndum hefur þó alltaf verið við lýði. ,,Ég ólst upp við kvikmyndir og hafði alltaf mikinn áhuga á þeim strax sem polli. Svo þótti ég lipur sögumaður og þyki enn. Þegar ég varð unglingur þróaðist þetta úr áhuga yfir í þráhyggju.“ segir Anton.

anton-ingiÞráhyggjan þróaðist síðan yfir í ástríðu og telur leikstjórinn að galdurinn við að gera kvikmynd sé að umkringja sig hæfileikaríku fólki. ,,Þegar kemur að því að gera kvikmynd þá snýst þetta um að umkringja sig fólki sem er klárara, hæfileikaríkara og reynslumeira en þú,“ segir Anton.

Hin 11 ára gamla Elva María fer með hlutverk Perlu í myndinni og má sjá hana hér að ofan á opinberu plakati myndarinnar. Leikstjórinn segist vera hæstánægður með frammistöðu hennar í myndinni.

,,Í mínu tilfelli þá var ég heppinn með leikkonu. Elva María er næsta stórstjarna okkar og virkilega þroskuð miðað við aldur. Hún hefur leikið i fjölda sýninga og var í raun vön leikkona þegar hún mætti inn í verkefnið. Við eyddum mestum hluta að ræða persónuna og söguna í stað þess að æfa. Þegar á sett var komið þá nálgaðist ég hana nánast á sama hátt og hina leikarana.“ segir Anton að lokum.

Grafir og Bein er framleidd af Ogfilms og meðframleidd af Pegasus og Mistery. Myndin verður sýnd í Laugarásbíó, Smárabíó, Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri.