Eins og allir Star Wars aðdáendur ættu að vita, þá eru geislasverðin í Star Wars myndunum litaskipt – ef þau eru græn eða blá þá eru notendur þeirra frá „ljósu hliðinni“ en ef þau eru rauð, þá er notendur þeirra af myrku hliðinni ( Dark Side ).
En afhverju ætli það sé svona skýr litamunur á sverðunum? Auðvelt er að álykta strax að þetta sé bara til að hægt sé að greina auðveldlega á milli góðs og ills, en nú hefur nýútkomna Star Wars hliðar-skáldsagan Star Wars: Ahsoka, birt nýjar upplýsingar um þetta áhugaverða atriði.
Í bókinni, sem er eftir EK Johnston, er útskýrt hvernig handhafar Máttarins ( the Force ) eru valdir af kyber kristölum sem mynda kjarnann í geislasverði, og mynda tengsl á milli Jedi stríðsmannsins og vopnsins. En Sith og aðrir aðilar myrku hliðarinnar, mynda ekki sömu tengsl við sín vopn. Þeir geta samt náð sér í ( eða stolið ) kyber kristal, en með því að beygja vopnið undir vald sitt verður „blæðing“ í sverðinu sem gerir blöð þess rauð á lit.
Persónan Ahsoka kom fyrst við sögu í Star Wars teiknimyndinni Star Wars: The Clone Wars frá árinu 2008, þegar padawan ( Jedi lærlingur ) var fenginn til að aðstoða Anakin Skywalker.
Fyrri skýring á rauða lit geislasverða myrku hliðarinnar, var að sverðin væru gerð úr gervi kyber kristölum, en ekki náttúrulegum kyber kristölum.
Talið er að kristallarnir muni leika rullu í söguþræði næstu hliðar – Star Wars sögu sem væntanleg er í bíó nú um Jólin, Rogue One: A Star Wars Story, sem gerist að hluta til á Jedha, tungli sem tengist Jedi riddurum sterkum böndum. Tengingin er að talið er, vegna þess að þar er mikið magn þessara kyber kristala, sem eru einnig notaðir til að knýja leysibyssur Dauðastjörnunnar, sem og geislasverða .