ADHD og Ballett í Bíó Paradís

mommy

Bíó Paradís við Hverfisgötu í Reykjavík býður upp á nýja mynd í sýningum nú um helgina, en þar er á ferðinni framlag Kanadamanna til Óskarsverðlaunanna 2015, myndin Mommy.

Mommy fjallar um móður og ekkju sem á fullt í fangi með að sjá um 15 ára son sinn sem á erfið unglingsár með ADHD. Þau reyna að lifa af mánaðarmót eftir mánaðarmót. Hin nýja nágrannakona þeirra Kyla, kemur til sögunnar sem býður fram hjálp sína. Í sameiningu reyna þau að finna jafnvægi og þar með er framtíðin bjartari.

Mommy er kanadísk kvikmynd í leikstjórn Xavier Dolan. Myndin var valin í aðalkeppni Palme d´Or á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2014 þar sem hún vann verðlaun dómnefndar.

ballett

En það eru ekki bara kvikmyndir í Bíó Paradís því bíóið ætlar að sýna ballettsýningar í vetur. Þar er um að ræða fjórar uppsetningar rússneska dansflokksins Bolshoi og verður fyrsti ballettinn sýndur 13. og 14. desember, La Bayadère. Í kjölfarið fylgja svo Svanavatnið, Rómeó og Júlía og Hnotubrjóturinn.

Í tilkynningu frá Bíó Paradís segir að Bolshoi ballettinn sé, eins og allir vita, einn sá allra besti í heiminum þegar kemur að listdansi. „Allar sýningarnar eru splunkunýjar þegar þær verða sýndar í Bíó Paradís. Hér er því um einstakt tækifæri að ræða fyrir áhugamenn og ekki síst atvinnumenn.“

Það eru þær Svetlana Zakharaova og Maria Alexandrova sem fara með aðalhlutverkin í ballettinum La Bayadére. Svetlana er almennt talin ein af bestu ballerínum sinnar kynslóðar og þykir búa yfir einstakri danstækni. Ballettinn er saminn af frakkanum Marius Petiba og tónlistin er eftir fiðluleikarann og tónskáldið Ludvig Minkus. Söguna þekkja kannski margir, en þar segir frá hinni fallegu Nikiya og stríðsmanninum Solor. Þau hittast á laun og lofa hvoru öðru eilífri tryggð.

Þegar hinn háttsetti Brahmin, sem einnig er ástfanginn af Nikiyu, heyrir af ráðahag þeirra, segir hann Rajah frá leyndarmálinu, en hann hefur þegar ákveðið að Solor eigi að giftast dóttur sinni Gamzatti.

Leikritið var fyrst flutt í Pétursborg árið 1877 og segir sagan að áhorfendur hafi verið svo hrifnir af sýningunni að þeir hafi klappað látlaust í einn og hálfan tíma eftir að sýningu lauk. Og ekki furða, enda ballettinn eitt af lykilverkum listdanssögunnar.