Á döfinni hjá Darabont

Eftir hörmulegar viðtökur The Majestic, hefur leikstjórinn/handritshöfundurinn Frank Darabont ákveðið að snúa sér aftur að handritaskrifum í bráð. Á borðinu hjá honum liggur hálfklárað handrit að Mine, sem byggt er á samnefndri bók eftir Robert McCammon. Hún fjallar um blaðakonu eina sem lendir í því að barninu hennar er rænt. Sú sem rænir því er kona ein, Mary Terrell að nafni, en hún er geðsjúklingur einn sem var í einhvers konar sérsveit á árum áður og er sannfærð um að foringi sérsveitarinnar hafi í gegnum smáauglýsingar í Rolling Stone tímaritinu, skipað sér að koma með barnið til sín. Hún leggur því í ferð yfir Bandaríkin með barnið sér við hlið, og drepur alla sem fyrir verða. Blaðakonan sér að hún ein getur náð barninu sínu til baka þar sem lögreglan virðist vera bjargarlaus, og brátt kemur að uppgjöri. Darabont hefur gefið til kynna, að ef honum takist vel til með handritið muni hann jafnvel leikstýra myndinni sjálfur, en þó má þess geta að hann er einnig með á verkefnalistanum hjá sér að skrifa handrit eftir Fahrenheit 451 eftir Ray Bradbury og handrit eftir smásögunni The Mist eftir Stephen King.