Ég veit ekki hvort að mjög margir sáu Exorcist: The Beginning hér á landi, en sjaldan hefur orðið eins mikið vesen á einni kvikmynd í framleiðslu og henni. Paul Schrader (sem skrifaði m.a. Taxi Driver) var upphaflega fenginn til að sjá um myndina, og hann náði öllu sem hann vildi. Svo þegar það kom að því að sýna framleiðendum hana voru þeir ósáttir við gríðarlegan skort á bregðuatriðum, ógeðfelldum senum og öðru slíku. Þar af leiðandi ráku þeir Schrader og fengu Renny Harlin í staðinn til að ‘laga’ myndina. Harlin gat ómögulega gert eitthvað af viti með efnið, svo hann neyddist til að taka upp 90% af myndinni upp á nýtt, en með heilmiklum breytingum, t.d. með að setja nýjar persónur inn. Þ.á.m. Izabella Scorupco, sem átti aldrei upphaflega að tilheyra sögunni, sem útskýrir kannski margt í sumum “fléttunum.“
Þeir sem sáu myndina gera sér líklega grein fyrir hversu hrá, ljót og viðbjóðsleg hún er á pörtum, en það var að sjálfsögðu ætlunin. En að lokum varð hún menguð af neikvæðum athugasemdum og fékk slæmt orðspor í kjölfarið.
En aðstandendur vilja fyrirgefa Schrader og þeir ætla að leyfa honum að klára útgáfuna sem hann hafði svo hún komist í bíó, sem yrði á næsta ári vestanhafs. Áður var sagt að báðar útgáfurnar myndu fylgja sama DVD-pakkanum, en hætt var við sú ákvörðun á endanum. Leikstjórinn er núna á svokallaða “post-production stiginu“ og verður eflaust forvitnilegt að sjá hvernig útgáfa hans verður.
Spurningin er hins vegar sú hvort þessari útgáfu gengur eitthvað betur, og hvort þeir sem ekki voru sáttir við hina útgáfuna taki sénsinn á að horfa á sömu sögu aftur, jafnvel þótt umbúðirnar séu gjörólíkar…
Óvíst (eða ólíklegt…) er hvort Schrader-útgáfan komi í bíó hérlendis, svo forvitnir íslenskir bíóaðdáendur verða sjálfsagt að bíða eftir vídeóinu.

