Á síðastliðinn miðvikudag opnaði Spider-Man 2 í Bandaríkjunum og urðu strax mikil læti kringum hana. Fyrir kvikmynd sem opnaði í miðri viku er hún búin að slá met þar og er komin með litlar 40,5 milljónir og er þar strax búin að trompa tölurnar sem forverinn setti á svipuðum tíma (39,5 milljónir).
Jafnframt toppaði hún fyrri metið, sem The Lord of the Rings: The Return of the King sló, sem tekjuhæsta myndin til að verða frumsýnd á miðvikudegi (sú mynd hékk með 34,5 milljónir þá).
Það er nánast öruggt – að mínu mati – að Spider-Man muni slá ennþá stærra met um helgina, en í bili er það Shrek 2 sem heldur metinu yfir að hafa grætt mestan peninginn á heilum degi. Og talandi um Shrek 2, þá er hún orðin fyrsta myndin til að ná upp í 400 milljónir á svona skömmum tíma – einungis 43 dögum – sem er mun betra en m.a. Titanic (tekjuhæsta mynd EVER – en það veit svosem hver maður með vit í kollinum), sem var 66 daga að ná því marki.
Það verður athugavert að fylgjast með þessum tölum þessa helgi, og þar sérstaklega gengi Kóngulóarmannsins. Það má vel vera að seinni myndin muni græða miklu meira, og undirritaður styður það fullkomlega, enda margfalt betri mynd.

