Himnaríki og helvíti fá framhöld!

Ofurhetjumyndin Hellboy sem opnaði í Bandaríkjunum síðastliðinn Apríl er nú á leiðinni að fá sitt framhald. Myndin þénaði prýðilegan gróða í heimalandinu en á þó enn eftir að verða frumsýnd sumstaðar í Evrópu (þ.á.m. hér á klakanum – en hún kemur víst ekki fyrr en í september) þannig að aðstandendur eru mjög bjartsýnir þessa dagana. Bæði Ron Perlman og Selma Blair hafa það innritað í samningi þeirra að gera framhald, en óvíst er um leikstjórann, Guillermo del Toro, þar sem hann á margt annað fyrir höndum. Ef hann mun snúa aftur verður það ekki á næstunni. Perlman er þó einna spenntastur fyrir þessu og hefur hann margtekið fram hvað honum þótti gaman að vera í þeirri fyrstu. Honum liggur hinsvegar pínulítið á, enda maðurinn nýorðinn 54 ára.

Bruce Almighty varð einhver tekjuhæsta mynd síðasta árs og voru margir ánægðir með að fá Jim Carrey aftur í grínhlutverk eftir langa bið. Nú hafa aðstandendur þeirrar myndar ákveðið að gera framhald þótt ólíklegt virðist. Áætlað er að taka fyrir þegar tilbúið handrit sem ber heitið The Passion of the Ark og verður því breytt í Bruce Almighty 2. Steve Oedekerk ætlar að endurskrifa þetta handrit og láta sinn ‘sérstaka’ húmor fylgja með (gleymið ekki að hann stóð einnig á bak við myndina Kung Pow). Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn þar sem gamalt handrit verði tekið fyrir í slíkt ferli og gert að framhaldsmynd. Fyrir mörgum árum varð handrit að nafni Simon Says tekið fyrir og úr því kom Die Hard with a Vengeance. Svo þetta getur varla verið svo slæmt… eða hvað?