Guillermo Del Toro og bakbein djöfulsins

Leikstjórinn Guillermo Del Toro ( Mimic ) er nú að leggja lokahönd á Blade 2 með Wesley Snipes, en áður en hann hófst handa við hana kláraði hann aðra mynd sem er nú að fara í dreifingu. Heitir sú mynd The Devils Backbone og er á spænsku. Er hún víst afar óvenjuleg hryllingsmynd, en hún fjallar hún um ungan dreng, Carlos að nafni, sem er sendur á munaðarleysingjahæli eftir að faðir hans deyr. Lendir hann fljótlega upp á kant við húsvörð staðarins og fer að grafa upp leyndarmál staðarins og þá sérstaklega draugsins sem gengur um munaðarleysingjahælið og jarðir þess. Myndinni er lýst sem óvenjulegri draugamynd, ófyrirsjáanlegum yfirnáttúrulegum trylli og öflugri pólitískri ádeilu. Myndin fer, eins og áður sagði, nú fljótlega í almenna dreifingu en það er Sony Pictures Classics sem á dreifingarréttinn á myndinni.