“Það sem byrjaði sem hvísl, endar sem bomba.” Lionsgate hefur sent frá sér fyrstu kitlu fyrir nýjustu mynd sína Bombshell, eða Bombu, í lauslegri íslenskri þýðingu. Myndin er byggð á hneykslismáli, og gefur innsýn í eitt helsta fjölmiðlaveldi samtímans; Fox News í Bandaríkjunum. Sögð er sagan af konunum sem stigu fram, og forstjóri stöðvarinnar sagði af sér í kjölfarið.
Þær sem leika konurnar eru Óskarsverðlaunaleikkonurnar Charlize Theron sem Megyn Kelly og Nicole Kidman sem Gretchen Carlson. Þá er hin óskarstilnefnda Margot Robbie í hlutverki uppskáldaðrar persónu, Kayla Pospicil. Til að klára að telja upp Óskarsleikarana, þá er John Lithgow í hlutverki hins fallna forstjóra stöðvarinnar Roger Ailes, en hann sagði af sér eftir að ásakanir á hendur honum um kynferðislega áreitni komu fram.
Þó að kitlan sé frekar einföld, þá fær maður ágæta mynd af umfjöllunarefni kvikmyndarinnar þegar við sjáum konurnar þrjár standa frekar taugatrekktar í lyftu, en hver og ein virðist vita hvað bíður þeirra á annarri hæðinni.
Ásakanir um kynferðislega áreitni Roger Ailes komu fyrst fram árið 2014, og eftir því sem fleiri fórnarlömb stigu fram, þá jókst pressan á forstjórann að segja af sér. Ailes, sem var ráðinn til starfans af eigandanum Rupert Murdoch, stjórnaði þessari einni af valdamestu fréttastofum Bandaríkjanna í 20 ár.
Handritshöfundur er sá sami og skrifaði handritið að Big Short, Charles Randolph. Leikstjóri er Jay Roach, sem áður hefur gert myndir eins og The Campaign með Will Ferrell og Zach Galifianakis og Dinner for Schucks með Paul Rudd og Steve Carrell. Þá er hann einnig maðurinn á bakvið Meet the Parents seríuna, bæði sem framleiðandi og leikstjóri.
Síðast gerði hann hina ævisögulegu Trumbo með Bryan Cranston, Diane Lane og Helen Mirren.
Bombshell er væntanleg í bíó í desember í Bandaríkjunum en 10. janúar 2020 hér á Íslandi. Kíktu á kitluna hér fyrir neðan: