Willis í fínu formi í ágætis B-mynd

Í stuttu máli er „Death Wish“ ágæt B-mynd sem tikkar í réttu boxin en verður seint talin til stórverka.

Upprunanlega „Death Wish“ (1974) með Charles Bronson var í fyrstu hugsuð sem ádeila á einstaklinga sem taka lögin í sínar hendur og sýna hvernig mannúðin hverfur smám saman og gerendurnir eru lítið skárri en þeir sem fá að finna fyrir réttlæti þeirra. Að minnsta kosti var það markmið samnefndrar bókar frá 1972 eftir Brian Garfield. Raunin varð önnur og myndin varð skólabókardæmi um hvernig hægt er að spila með áhorfendur og fá þá til að hvetja áfram aðila sem virðir lögin að vettugi og útdeilir réttlæti til þeirra sem hann telur verðskulda það en lögin virðast ekki geta náð til.

Heiðarlegur og löghlýðinn einstaklingur, skurðlæknirinn Paul Kersey (Bruce Willis), lifir góðu lífi ásamt eiginkonu sinni Lucy (Elisabeth Shue) og dóttur þeirra Jordan (Camila Morrone). Allt breytist á svipstundu þegar innbrotsþjófar drepa eiginkonu Pauls og koma dóttur hans í dá og óvíst hvort hún muni ná bata. Paul kemst að raunum um það hve ólíklegt það er að lögreglan hafi hendur í hári ódæðismannanna og eftir smá tíma verður hann sér úti um byssu og fer að útdeila göturéttlæti til varga samfélagsins. Óvænt kemst hann svo á snoðir þeirra er frömdu glæpinn og í stað þess að láta yfirvöld vita fer hann að hafa upp á þeim sjálfur.

Í raun er þessi nýja útgáfa lausleg endurgerð á fyrstu tveimur „Death Wish“ myndunum (alls voru þær fimm talsins með Bronson) en í þeirri fyrri vissi Paul ekki hverjir voru á bak við verknaðinn. Þar hélt hann bara út á göturnar og drap einstaklinga sem voru sýnilega slæmir. Í þeirri seinni, þegar dóttir hans var myrt, vissi hann hverjir voru sekir og drap þá með enn svæsnari hætti. Hér slá Willis og leikstjórinn Eli Roth tvær flugur í einu höggi og eftir rétt um klukkutíma er Paul orðin goðsagnarkennd fígúra á götum úti sem eins manns aftökusveit sem losar samfélagið við hættuleg mein áður en hann snýr sér að þeim seku.

Smá púðri er eytt í siðferðislegu hliðina um hvort svona einstakling beri að fordæma eða fagna sem hetju með því að sýna útvarpsstjórnendur og gesti þeirra skiptast á skoðunum en í raun er Roth lítið að velta sér upp úr því og leyfir grunnhugmyndinni um réttlátan hefndarþorsta að njóta sín til fulls. En segja má að myndin komi á alversta tíma þar sem umræðan um byssueign kanans og skaðsemin sem fylgir er að nálgast suðupunkt og svöl atriði (undir AC/DC laginu „Back in Black“) er sýna Paul ná góðum takti með skotvopn sitt eru í besta falli frekar óviðeigandi.

Samt er „Death Wish“ alveg ágæt mynd og Roth tekst nokkuð vel upp með þennan ófrumlega en ávallt grípandi efnivið. Það er alltaf viss ánægja fólgin í því að sjá vondu kallana drepna með tilþrifum og í heimi afþreyingar er flestum áhorfendum nokk sama hvort laganna vörður eða óbreyttur borgari framkvæmi verknaðinn. Hér er ekki að finna djúpar pælingar um hvernig sálartetrið hverfur í myrkt hyldýpi þegar einstaklingur verður fyrir óbætanlegum missi og grípur til þess að verða dómari og böðull en áhorfandinn fær þó ánægjuna af því að sjá réttlætinu útdeilt til mannskepna sem eiga ekki skilið að draga andann. Svo eru þetta frekar hrottalegar og blóðugar aftökur. Þetta höfðar til frummannsins í okkur.

Bruce Willis kemst vel frá hlutverki Paul. Þessi fyrrum stórstjarna hefur verið í nokkuð frjálsu falli undanfarin ár og virkað frekar áhugalaus í röð ódýrra VOD mynda en þetta hlutverk er skref í rétta átt. Hann sleppur fyrir horn þegar dramatískra takta er þörf og hann lítur enn vel út í hasaratriðunum. Vincent D‘Onofrio er alveg eðal í hlutverki bróður Pauls og Elisabeth Shue er alltaf jafn sjarmerandi. Helst var ég pínu ósáttur við Dean Norris og Kimberly Elise í hlutverkum lögreglumanna en ekki nógu mikið til að þau skemmdu eitthvað verulega fyrir.

Heilt yfir er „Death Wish“ hin fínasta afþreying. Það er alveg hægt að hnýta í ýmsa hluti en sem B-mynd sem er endurgerð á hálfgerðri B-mynd þá tikkar hún í réttu boxin og þessi rýnir gekk sáttur frá.