Michael Imperioli sem lék m.a. í mynd Ólafs Jóhannessonar Stóra planið og hlutverk Christopher Moltisanti í The Sopranos þáttunum vinsælu, hefur verið ráðinn í hlutverk engils í annarri þáttaröð sjónvarpsþáttanna Lucifer.
Um er að ræða hlutverk Uriel, eins af sjö erkienglum sem stjórna heiminum, en nafn hans hefur verið þýtt sem „Eldur Guðs“ eða „Guð er ljós mitt“.
Uriel kemur víst ekki mikið við sögu í kaþólskum sið, en á hann er meira minnst í lútherskum og Gyðinglegum fræðum, í bókum eins og Book of Enoch og Apocalypse of Peter, og sömuleiðis má finna hann í sögum um fall Lucifer.
Vísað er til þess að í þáttunum sé Uriel erkiengill endurlausnar og hinna fordæmdu.
Lucifer er sýnd á Fox sjónvarpsstöðinni og hóf göngu sína 25. janúar á þessu ári.
Þættirnir fjalla um Lucifer, hinn upprunalega fallna engil, sem er orðinn leiður á lífinu í helvíti. Hann hefur afsalað sér krúnunni, og fluttur til Los Angeles. Þar nýtur hann lífsins lystisemda þar til morð er framið fyrir utan næturklúbb. Í fyrsta sinn í milljarða ára þá vekur morðið upp framandlegar kenndir í sálu Lucifer sem minna á samúð og meðaumkun. Hann kynnist svo rannsóknarlögreglumanninum Chloe og í kjölfarið fer hann að spá í hvort að mögulega eigi hann von til þess að bjarga sálu sinni.