Bíódagar Græna Ljóssins: 5 titlar staðfestir

Kvikmyndaveislan BÍÓDAGAR GRÆNA LJÓSSINS hefst 11. apríl í Regnboganum og hér með eru staðfestir 5 síðustu titlarnir, til viðbótar við þá 7 titla sem voru áður kynntir.

::: OPNUNARMYNDIN
Þá er orðið ljóst hver opnunarmyndin er og er hún ekki af verri endanum. Nýbakaður sigurvegari Kvikmynda-hátíðarinnar í Berlín, TROPA DE ELITE, mun opna Bíódaga með pompi og prakt. Hér er á ferðinni kyngimögnuð pólítísk hasar-dramamynd frá Brasilíu, um sjálfstæða sérsveit innan lögreglunnar, sem hefur það hlutverk að berjast með öllum tiltækum ráðum gegn eiturlyfjabarónunum í fátækrahverfum Rio De Janeiro. Myndin hefur slegið öll aðsóknarmet í heimalandi sínu og valdið gríðarlega miklu umtali. Fyrir utan sýningar í Brasilíu og Berlín hefur myndin ekki ennþá verið frumsýnd í öðrum löndum, en búist er við því að hún fari mikla sigurgöngu um allan heim á næstu misserum. Það er því mikill heiður fyrir Bíódaga Græna ljóssins að frumsýna myndina á undan flestum öðrum hátíðum og löndum heims.

The King of Kong (Seth Gordon, 2007, 79mín, USA)
Óborganleg heimildarmynd um mestu tölvunörda veraldar. Heimsmeistarinn í Donkey Kong er sósumógull sem lifir á fornri frægð og áskorandinn er grunnskólakennari sem ætlaði að verða rokkstjarna, en hættir til að gráta við minnsta tilefni. Uppgjör þessarra manna er einn mesti bardagi allra tíma.

SAND AND SORROW (Paul Freedman, 2007, 92mín, USA)
Vönduð og áhrifarík heimildarmynd um þjóðarmorðin í Darfur og hvernig alþjóðasamfélagið hefur brugðist skyldum sínum í að koma böndum á ástandið. George Clooney er þulur myndarinnar.

BELLA (Alejandro Gomez Monteverde, 2006, 91mín, USA)
Hugljúf mynd um einn dag í lífi þriggja manneskja í New York, sem hefur afgerandi áhrif fyrir líf þeirra allra. Myndin sigraði Áhorfendaverðlaunin á Toronto.

LIVING LUMINARIES (Larry Kurnarskuy, 2007, 90mín, USA)
Ef þú fílaðir The Secret þá muntu elska þessa. Helstu fræðimenn og spekingar heims á sviði hamingjuleitarinnar fjalla á áhugaverðan hátt um það hver sé rétta leiðin til að öðlast hina einu sönnu hamingju.

Sýningardagskrá verður hægt að nálgast á Miði.is og þar fer einnig fram sala á miðum og 10 mynda afsláttarpössum, sem verða gefnir út í takmörkuðu magni. Við hér hjá Kvikmyndir.is munum fara í það á næstu dögum að gera allar upplýsingar um myndirnar sem aðgengilegastar hér á síðunni.

Fréttin er fengin af heimasíðu Græna Ljóssins