Íslendingar flykkjast á nýjustu mynd Ben Stillers, The Secret Life of Walter Mitty, samkvæmt nýjustu aðsóknartölum kvikmyndahúsanna. Það þykir þó engin furða, því Ísland er eitt af aðaltökustöðum myndarinnar. Að auki er úrval íslenskra leikara í leikaraliði kvikmyndarinnar, meðal annars leika þeir Ólafur Darri, Gunnar Helgason, Ari Matthíasson og Þórhallur Sigurðsson í myndinni. Íslendingar koma einnig að tónlistinni í myndinni því lagið Dirty Paws, eftir Of Monsters and Men hljómar í mikilvægri senu.
The Secret Life of Walter Mitty er leikstýrt af Ben Stiller sem einnig skrifar handritið og leikur aðalhlutverkið. Myndin er endurgerð á samnefndri mynd frá árinu 1947 með Danny Kaye í aðalhlutverkinu.
Önnur myndin í þríleik Hobbitans fer í annað sætið og Wolf of Wall Street, með Leonardo DiCaprio í aðalhlutverki, heldur þriðja sætinu.