Páskamynd Senu og Laugarásbíós, Hellisbúateiknimyndin The Croods fór rakleiðis á topp íslenska bíóaðsóknarlistans á sinni fyrstu viku á lista, en myndin var frumsýnd í síðustu viku. Önnur Páskamynd, myndin Ófeigur gengur aftur, þar sem Laddi leikur draug sem byrjar að ónáða dóttur sína og kærastann hennar, fékk einnig góða aðsókn um helgina, og situr ný á lista í öðru sæti aðsóknarlistans. Myndin er nýjasta mynd leikstjórans Ágústs Guðmundssonar.
Í þriðja sæti, niður úr toppsætinu, á sinni annarri viku á lista, er ævintýramyndin Jack the Giant Slayer, með Nicholas Hault í aðalhlutverkinu, en myndin er að hluta byggð á ævintýrinu um Jóa og baunagrasið.
Í fjórða sætinu, er þriðja nýja myndin á listanum, en það er rómantíska gamanmyndin I Give It a Year, um hjón sem komast að því að líklegast hafi þau gert mistök með því að giftast.
Í fimmta sæti er svo fyrrum toppmynd listans, Oz the Great and Powerful, en myndin er einskonar forsaga af Galdarkarlinum frá Oz.
Ein önnur ný mynd er á listanum, en það er myndin Quartet um lífið á heimili fyrir eldri borgara.
Sjáðu lista 19 vinsælustu mynda á Íslandi í dag hér að neðan: