Depp gerir Don Kíkóta

Infinitum Nihil, framleiðslufyrirtæki þeirra Johnny Depp og Christi Dembrowski, hefur skrifað undir samning við Disney um að framleiða einskonar nútímaútgáfu af sögunni um riddarann Don Kíkóta, eða  Don Quixote de la Mancha, eftir spænska rithöfundinn Miguel de Cervantes Saavedra. Disney hefur fengið þá Steven Pink og Jeff Morris til að skrifa handritið.

Samkvæmt frétt vefsíðunnar Deadline þá hefur Depp lengi haft áhuga á Don Kíkóta og á tímabili var Depp orðaður við mynd um Don Kíkóta sem Terry Gilliam reyndi að gera, en varð ekki að veruleika.

Ekki fylgir sögunni hvort að Depp hyggst sjálfur leika riddarann, en það má auðveldlega sjá hann fyrir sér í því hlutverki, eða hvað finnst ykkur?