Ath! Þeir sem lesa hvaða mynd er tekin til umræðu í þessum fasta lið eru beðnir um að skoða afganginn á þessu innihaldi á eigin ábyrgð. Tilgangurinn með þessu er að benda á sorglega myndefnið sem aðstandendur bíómynda setja stundum framan á DVD/BLU-Ray hulstrin, ómeðvitaðir (eða hvað?) um það að á þeim ríkir gríðarlegur spoiler. Sem sagt, ef þú hefur ekki séð myndina sem er nefnd í fyrirsögninni ertu vinsamlegast beðin/n um að skipta (tímabundið) um síðu, því oft er verið að skemma fyrir góðum myndum… ekki í þessu tilfelli.
MYND: HANCOCK (2008)
HVERNIG ER HULSTRIÐ AÐ SKEMMA FYRIR MANNI?
Þeir sem hafa séð myndina (og ekki síst þeir sem fíluðu hana) sjá þetta strax og hugsa eflaust: Af hverju í helvítinu?!
Þetta hulstur gefur upp tvennt mikilvægt sem kemur ekki í ljós fyrr en í lokaþriðjungnum:
1) Það að Charlize Theron skiptir sögunni miklu máli (við áttum ekki að vita það strax, sama hvort það var fyrirsjáanlegt eða ekki)
2) Það að hún sé með ofurkrafta og gæti mögulega verið illmenni myndarinnar.
Ég er bara feginn að það sé ekki verið að skemma fyrir manni betri mynd heldur en þetta (sjá samt Warrior-hulstrið, sem er ekkert skárra). En þangað til að líður að miðbiki Hancock-myndarinnar snýst hún öll í kringum Will Smith og persónu(galla) hans. Áhorfandinn á ekki að vita neitt betur um hvert sagan stefnir fyrirfram eða hvort einhver önnur persóna með sambærilega krafta sé til, sérstaklega ekki á DVD hulstrinu!
Ég skil einfaldlega ekki alveg hvers vegna þetta er svona mikið mál, og ef mér skjátlast ekki, þá eru til þrjár mismunandi týpur af DVD-hulstrinu sem fer eftir útgáfum. Það er til útgáfan með bíóplakatinu, þessi með Charlize og þessi án hennar.
Ef þið hafið fleiri tillögur að sambærilegum hulstrum, þá megið þið senda póst á tommi@kvikmyndir.is og kannski koma með ykkar eigin útskýringar á þeim, ef þið viljið.