Beint-á-DVD árið 2011 gert upp

Það allra klikkaðasta sem rataði beint á DVD eða í sjónvörp þetta árið er tekið til og fær sínar fimmtán mínútur af frægð. Nóg var af ónauðsynlegum framhaldsmyndum, hákörlum og heimsendum til að reyna á þolinmæði hinna hörðustu áhugamanna og gagnrýnenda.

Mikið var um góðar Beint-á-DVD myndir sem komu út ár árinu eins og Batman: Year One og fleiri ræmur frá DC-animated, Marvel og virtari kvikmyndaframleiðendum, en við megum ekki gleyma hinum afkastamiklu Asylum-framleiðendum og hinum heilmörgu After Effects-meisturum sem lögðu blóð, svita og tár í eftirfarandi meistarastykki:


Battle of Los Angeles
Áttir þú ekki nóg í vasanum til að sjá Battle: Los Angeles? Þá hafa snillingarnir hjá Assylum reddað þér með Battle OF Los Angeles, nema hvað að þetta er í raun ódýrari endurgerð af Independence Day. Hver þarf Aaron Eckhart þegar við höfum fremsta leikstjóra Asylum-manna, Mark Atkins, til að vísa okkur á rétta braut?


The Almighty Thor
Hér er kvikmynd sem tekst að laga öll helstu vandamál Thor frá Marvel: minna af Ásgarði, fleiri eðluskrímsli, Þór með Uzi-byssur og Patricia Velasquez að skjóta úr bazooku. Hvernig er þessi mynd ekki betri en Thor?


Mega Python vs. Gatoroid
Hvað höfum við gert? Ef aðeins við hefðum slept því að blanda vísindum við náttúruna hefðum við getað forðast stærsta bardaga okkar tíma! Risaslanga gegn Gatorade- ég meina Gatoroid; risakrókódíl! sama hver vinnur… við töpum! Einungis poppstjörnur frá níunda áratugnum geta bjargað okkur nú.


Mean Girls 2
Undirbúið ykkur fyrir að skíta regnbogum og prumpa glimmeri, því það er til sykursætt og gjörsamlega tilgangslaust framhald af hinni óvæntu Mean Girls. Augun mín hætta ekki að blæða bleiku eftir að hafa séð þessa teen-power stiklu.


3 Musketeers
Skytturnar Þrjár eru mættar til leiks sem nútímalegar Rambo-hetjur og þurfa að þessu sinni að koma í veg fyrir þriðju heimsstyrjöldina. Hvernig getur hasarmynd með Kane Hodder í cameo-hlutverki verið léleg?


Super Shark
Meistarinn Fred Olen Ray er mættur á ný með enn eina klikkaða hákarlamynd þar sem hugmyndaflugið er hvergi sparað; risahákarl eyðileggur olíubor, herþotu, gengur á landi og ekki er hægt að loka baðströndinni sem hann ógnar af því að unglingarnir eru að fara þangað í frí. Eina leiðin er að senda fjórfættan skriðdreka til að gera útaf við ófreskjuna.


Princess and the Pony
Það jafnast ekkert á við að heyra „The Assylum presents“ fyrir hjartnæma fjölskyldumynd.


Roadkill
Ekki keyra á sígaunakonu. Ef þú asnast í það mun hún leggja á þig bölvun sem fellst í að risastór fugl mun tæta þig í sig. Lærði engin af Thinner?


Behemoth
Verst að svona flott skrímslahönnun endaði í þessari mynd: ELDFJALLIÐ. ER. SKRÍMSLIÐ!


Marley & Me 2: The Puppy Years
Munið þið eftir saklausu og krúttlegu myndinni Marley & Me með Jennifer Aniston og Owen Wilson? Jafnvel ef þið munið varla eftir þeirri mynd þá eruð þið pottþétt á því að Marley talaði aldrei. Eitthvað hefur farið mjög úrskeiðis í þessu framhaldi.


2012: Ice Age
Mannkynið hefur herjað stríð gegn ísjökum. Mjög hraðir ísjakar eru á leið frá norðurskautinu til að tortríma okkur öllum(eða réttara sagt; New York). Þetta er klárlega besta kvikmyndahugmyndin árið 2011 og stiklan selur hana algjörlega.

Eins og þið sjáið er margt gæðaefni í boði fyrir næsta myndagláp. Sáuð þið einhverjar klikkaðar Beint-á-DVD myndir frá árinu? Hverjar og hvað fyrir ofan líst ykkur best á?