Strumparnir orðin vinsælasta fjölskyldumynd ársins

Nýja þrívíddar Strumpamyndin er orðin fjölsóttasta fjölskyldumynd ársins á Íslandi, en myndin hefur slegið í gegn bæði í Bandaríkjunum, þar sem menn tala um hana sem óvæntan sumarsmell, og hér á Íslandi.
8.700 manns sáu myndina á fimm fyrstu dögunum sem hún var sýnd, sem þýðir að hér er á ferðinni stærsta opnun ársins á fjölskyldumynd og skýtur myndin þar með Kung Fu Panda 2 ref fyrir rass.

Í frétt frá Senu segir að 80% af gestum hafi kosið að sjá myndina í þrívídd en einnig var boðið upp á myndina í tvívídd.

Í aðahlutverkum eru Hank Azaria, Neil Patrick Harris, Jayma Mays og Sofía Vergara úr Modern Family þáttunum vinsælu.

Íslenska útgáfan skartar Ladda sem Kjartani Galdrakarli en raddir Strumpana eru meðal annars í höndum Ævars Þórs Benediktssonar, Atla Rafns Sigurðarsonar, Þrastar Leós Gunnarssonar og Kjartans Gujónssonar. Þá ljær poppdívan Jóhanna Guðrún Strympu rödd sína en Katy Perry sér um það hlutverk í ensku útgáfunni.