Vel á fimmta þúsund mættu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í dag, laugardaginn 25. júní, þar sem Alþjóðlegi Strumpadagurinn var haldinn hátíðlegur með viðeigandi blárri slagsíðu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Senu.
„Alvöru tveggja metra hár Strumpur, sem brá á leik og skemmti gestunum, vakti sérstaka kátínu meðal yngstu kynslóðarinnar sem vildu sum hver taka hann með sér heim. Það sem virtist vera einskonar innrás Strumpanna vakti líka mikla athygli, en litlir Strumpar með áföstum bíómiðum á væntanlega Strumpabíómynd voru á víð og dreif um garðinn. Sá á Strump sem finnur reglan gilti og voru allir Strumparnir komnir í leitirnar og í hendur nýrra eigenda sinna fyrir klukkan 14:00. Fjölmargt annað var í boði fyrir gesti garðins og fengu öll börn afhendann Strumpaópalpakka við innganginn, ókeypis andlismálun í anda Strumpanna tryggði að allir blánuðu í framann í tilefni dagsins og gátu gætt sér á bláum Strumpaís, bláum ullarbrjóstsykri (candyfloss) og bláu Strumpasnakki.“
Strumpamyndin verður frumsýnd í þrívídd 10. ágúst á Íslandi og skartar Ladda sem Kjartani Galdrakarli en raddir Strumpana verða meðal annars í höndum Ævars Þórs Benediktssonar, Atla Rafns Sigurðarsonar, Þrastar Leós Gunnarssonar og Kjartans Gujónssonar. Þá mun poppdívan Jóhanna Guðrún ljá Strympu rödd sína.