Titanic sýnd í þrívídd á 100 ára afmæli Titanic

Stórmyndin Titanic sem er skrifuð, leikstýrt og framleidd af James Cameron, og er með Leonardo di Caprio og Kate Winslet í aðalhlutverkum, kemur aftur í bíó á næsta ári, en nú í þrívídd.
Frumsýna á þrívíddarútgáfu myndarinnar þann 6. apríl á næsta ári, en þann 10. apríl 2012 eru nákvæmlega 100 ár frá því að skemmtiferðaskipið Titanic lagði upp í sína fyrstu, og um leið hinstu för, en eins og frægt er orðið sigldi skipið, sem þá var stærsta skemmtiferðaskip sem nokkru sinni hafði verið smíðað, á borgarísjaka og sökk.
Titanic er næst tekjuhæsta bíómynd allra tíma og er ein af þremur myndum sem hafa fengið 11 Óskarsverðlaun, þar á meðal sem besta mynd og fyrir bestu leikstjórn.
Myndin var á sínum tíma, árið 1997 þegar hún var frumsýnd, lofuð fyrir útlit og tæknibrellur en Cameron og félagi hans Jon Landau, lofa því að með því að setja hana í þrívídd verði myndin stórkostlegri en nokkru sinni fyrr. „Það er heil kynslóð manna sem ekki hefur séð myndina í bíó. Þrívíddin mun svo auka enn á áhrifagildið. Þetta verður mikilfengleg upplifun fyrir aðdáendur og aðra sem eru að koma að myndinni í fyrsta skipti,“ segir James Cameron í fréttatilkynningu.

Stikk: