Star Wars 3D í bíó á Íslandi 10. febrúar 2012

Eins og sagt var frá hér á kvikmyndir.is á sínum tíma, þá stendur til að sýna allar Star Wars myndirnar í bíó í þrívídd næstu sex árin, í réttri röð.

Byrjað verður á mynd númer eitt; Star Wars I: The Phantom Menace, og verður hún frumsýnd í 3-D á Íslandi þann 10. Febrúar 2012.

Eins og segir réttilega í tilkynningu frá Senu þá er hér um að ræða einn alvinsælasta kvikmyndabálk sögunnar. Star Wars I: The Phantom Menace er til dæmis meðal vinsælustu kvikmynda sem frumsýndar hafa verið á Íslandi. Myndin er frá árinu 1999 og 65.000 manns komu að sjá myndina í bíó og þénaði hún 40 milljónir á Íslandi.
Næst á eftir The Phantom Menace, verður síðan Star Wars II: Attack of the Clones frumsýnd í 3-D árið 2013 og svo koll af kolli.

Til gamans má geta þess að fjölmargar umfjallanir hafa verið skrifaðar um Star Wars myndirnar hér á kvikmyndir.is og til að mynda hafa 37 notendur skrifað umfjöllun um Star Wars ll: Attack of the Clones.