Það hefur staðið til í nokkurn tíma að Sam Raimi, maðurinn á bak við myndir á borð við Evil Dead og Spider-Man, myndi taka að sér að leikstýra kvikmynd byggðri á tölvuleiknum vinsæla World of Warcraft. Raimi, sem er sjálfur mikill aðdáandi leiksins, lýsti því nýlega yfir að framleiðslu á World of Warcraft væri frestað þar sem hann vildi leggja í önnur verkefni fyrst.
Nú hefur leikstjórinn Duncan Jones lýst yfir áhuga á því að taka við af Raimi. Jones, sem leikstýrði myndinni Moon, sagði í nýlegu viðtali að hann öfundaði Raimi gríðarlega vegna World of Warcraft og að hann væri reiðibúinn til að taka við af honum. Jones sagði í viðtalinu, „Pælingarnar sem [Raimi] hafði og leiðin sem hann ætlaði að fara…ótrúlegt! Maður á ekki að hafa áhyggjur af því hvernig leikurinn spilast heldur af því að skapa þennan heim og fá aðdáendur til að fjárfesta í honum.“
Ekki enn er vitað hvort Sam Raimi muni á endanum leikstýra myndinni, en talið er visst að hann muni í það minnsta starfa sem framleiðandi.
– Bjarki Dagur