Sá orðrómur flakkar um netið að Warner Bros. hafi beðið Tim Burton að draga úr óbjóðnum í Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street, sem er byggð á söngleik eftir Stephen Sondheim. Nú gæti sumum þótt afstaða Warner Bros. vera heldur furðulegt miðað við söguþráðinn, en hann snýst um djöfullegan rakara sem setur fórnarlömb sín í vélstól, sker þau á háls og lætur þau renna niður til ástkonu sinnar svo að hún geti notað þau í kjötbökur sínar. Ósk Warner Bros. um að gera úr þessu barnvæna mynd ætti því að reynast heldur tyrfin, sama hvernig á það er litið.
Atriðið sem fór hvað mest fyrir brjóstið á stjórnendum Warner Bros. myndversins ku vera af tíu ára strák að skera lík niður í búta, sem síðar voru settir í hökkunarvél.
Það er svo sem ekkert nýtt á nálinni að stjórnendur myndveranna reyni að stjórnast með sköpunarverk leikstjóranna, en nýlega greindi Variety frá því að Julie Taymor hafi hugleitt að láta fjarlægja nafn sitt sem leikstjóra myndarinnar Across the Universe. Ástæðan var sú að stjórnandi myndversins Joe Roth, sem hefur sjálfur dágóða leikstjórareynslu, tók sig til og klippti myndina upp á nýtt og setti sína útgáfu í prufusýningar.

