Heimildarmyndin um tónleikaför Sigur Rósar um Ísland er loksins að verða tilbúin og hefur hlotið nafnið Sigur Rós – Heima. Hún verður heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík 27. september næstkomandi. Almennar sýningar hefjast svo 5. október, en forsalan hefst 18. september fyrir þá sem vilja tryggja sér miða sem fyrst.
Samanlagt mættu rúmlega 35.000 manns á fría tónleika Sigur Rósar á Íslandi sl. sumar en hljómsveitin spilaði á Ólafsvík, Ísafirði, Djúpuvík, Háls í Öxnadal, Klambratúni í Reykjavík, Snæfelli við Kárahnjúka, Seyðisfirði og í Ásbyrgi. Tónleikar fyrir myndina fóru einnig fram við Listasafn Samúels Jónssonar í Selárdal, Leikskálum í Vík, Surtshelli með Páli frá Húsafelli og á þorrablóti Kvæðamannafélagsins Iðunnar á Kirkjubæjarklaustri. Þar að auki spilaði Sigur Rós á sérstökum órafmögnuðum tónleikum að Gömlu Borgum. Til viðbótar við allar tónleikatökurnar voru tekin viðtöl við hljómsveitarmeðlimina um tónleikaferðina.
Sýnishorn af myndinni er komið á vefinn kvikmyndir.is.

