Sony framleiðslufyrirtækið tilkynnti nú rétt í þessu hver ætti að leika Peter Parker sem er jafnframt ofurhetjan Spider Man, í næstu mynd um kappann. Leikarinn sem varð fyrir valinu er breski leikarinn Andrew Garfield, sem verður 27 ára gamall nú í ágúst.
Leikstjóri myndarinnar, Marc Webb segir að þó að Garfield sé kannski ekki mjög þekktur, þá viti þeir sem þekkja hann af því hvað hann er gífurlega hæfileikaríkur. „Hann hefur sérstaka blöndu af gáfum, hnyttni og manngæsku. Takið mark á því þegar ég segi, að þið eigið eftir að elska Andrew Garfield í þessu hlutverki.“
Það verður spennandi að sjá hversu vel Garfield tekst að feta í fótspor Tobey Maguire sem lék köngulóna í hinum þremur myndunum.