533 barna faðir – Ný stikla

Eftir leik í Google gamanmyndinni The Internship, sem hefur hlotið misjafnar viðtökur, og gárungar hafa talað um sem langa Google auglýsingu, og er í bíó hér á landi um þessar mundir, fær Vince Vaughn tækifæri til að bæta um betur strax í haust þegar önnur gamanmynd með honum verður frumsýnd. Um er að ræða myndina Delivery Man, en í dag kom út stikla fyrir myndina.

Myndinni er leikstýrt af Ken Scott, en um er að ræða endurgerð hans sjálfs á eigin mynd; kanadíska smellinum Starbuck, sem Græna ljósið sýndi  hér á landi í fyrra.

DELIVERY MAN

Myndin segir frá manni, sem leikinn er af Vaughn, sem var eitt sinn sæðisgjafi og á nú 533 börn, en hluti þeirra berst fyrir því að fá að vita um rétt faðerni sitt.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

Aðrir leikarar eru m.a. Chris Pratt, Cobie Smulders og Britt Robertson.

Söguþráðurinn er á þessa leið; David Wozniak er ljúfur maður og lítt áberandi. Líf hans fer á hvolf þegar hann kemst að því að hann er faðir 533 barna, vegna sæðisgjafa sem hann stundaði 20 árum áður.

Nú þegar Wozniak skuldar mafíunni peninga og á kærustu sem er ófrísk, þá gætu þetta ekki verið verri fréttir fyrir Wozniak. Þegar 142 af þessum 533 börnum fara í mál til að fá að vita hver líffræðilegur faðir þeirra er, þá brýtur David heilann um hvort að hann eigi að koma fram og viðurkenna hver hann er. Allt þetta verður til þess að hann þarf að horfa í eigin barm, sem leiðir til þess að hann lærir ýmislegt um sjálfan sig og hvernig faðir hann gæti orðið.

Delivery Man verður frumsýnd í Bandaríkjunum 22. nóvember nk.