370 klukkutímar urðu að 88 mínútum

Á miðvikudagskvöldið seinasta var haldin sérstök forsýning á nýjustu heimildarmynd Morgans Spurlock, The Greatest Movie Ever Sold, en hún fer í almennar sýningar í dag. Spurlock er auðvitað þekktastur fyrir Super Size Me (og svo gerði hann Where in the World is Osama bin Laden – en enginn virðist muna eftir henni…) og fjallar þessi nýjasta mynd hans aðallega um svokallaðar „product placement“ auglýsingar í bíómyndum og sjónvarpsþáttum.

Hugmyndin á bakvið við myndina er í grunninn einföld. Spurlock fjallar um auglýsingar stórfyrirtækja með því að leita að stórfyrirtæki til að auglýsa myndina sína. Með öðrum orðum, The Greatest Movie Ever Sold fjallar um Spurlock að leita að stórfyrirtæki til að styrkja mynd um leit hans að stórfyrirtæki til að styrkja myndina. Myndin var frumsýnd á síðustu Sundance-kvikmyndahátíð og hlaut fádæma góðar viðtökur. Meira að segja bættust auka sponsoraðilar við framleiðslu myndarinnar eftirá að sögn leikstjórans.

Þessi forsýning á miðvikudaginn var mjög svo sérstök þar sem að Spurlock var sjálfur staddur á henni og hélt bæði kynningu og 40 mínútna langt „Q&A“ eftirá (á íslensku yrði það þýtt sem „Spurt og svarað“). Undirritaður var á svæðinu og var mjög ánægður með stemmninguna sem myndaðist í salnum þegar Spurlock var kominn upp á svið til að taka á móti spurningum. Í mörgum tilfellum á Íslandi hafa svona Q&A sýningar misheppnast svakalega; fólk stendur upp og fer strax að sýningu lokinni, enginn spyr að neinu (eða verra, sami gaurinn spyr að öllu!) og jafnvel þótt spurningar komi rúllandi þá er andrúmsloftið oft frekar dautt. En ekki hér.

Spurlock hefur augljóslega mikla reynslu á því að standa frammi fyrir fólki og notar hann gjarnan húmor sinn og líflegan persónuleika til að gera kvöld áhorfenda skemmtilegra. Maðurinn var ótrúlega hress og prýddi salinn með mörgum skemmtilegum bransasögum. Að mati undirritaðs var ekki síður skemmtilegt að fylgjast með Spurlock en að horfa á bestu klippurnar af Kevin Smith, en það fór reyndar allt eftir því hvað var rætt um. Spurningar áhorfenda voru í flestum tilfellum góðar, en einhverjar voru dálítið úti á þekju.

Mynd Tómas Valgeirsson/kvikmyndir.is

Spurlock hóf sýninguna með því að útskýra hvernig hugmyndin varð til, og allir þeir sem hafa fylgst með viðtölum við hann ættu að þekkja þá sögu. Það var þáttur í annarri seríu af Heroes sem sýndi gríðarlega þvingaða Nissan Rogue auglýsingu (stelpu voru gefnir lyklar að bílnum og hún nafngreindi bíltýpuna í hástöfum) sem fékk hann til að vilja kafa nánar út í heim „product placement“ auglýsinga.

Áhugaverðustu punktarnir í spurningasetunni voru bransasögurnar, sem og þær reynslusögur sem fylgdu þeirri erfiðu framleiðslu sem þessi mynd var. Næstum því heilt ár fór í upptökur af Spurlock í símanum og á fundum þar sem enginn vildi neitt með myndina hafa. Á endanum voru 370 klukkutímar af efni klipptir niður í þær 88 mínútur sem við sjáum í dag. Spurlock segir að það sé met, og að til samanburðar voru 250 tímar af efni klipptir niður í 100 mínútur þegar hann gerði Super Size Me.

Sena hefur tekið það fram að vegna fjölda áskorana verður Spurlock aftur með spurt og svarað sýningu í kvöld kl. 20:00 í Háskólabíói. Ég mæli eindregið með því að fólk mæti, spyrji og taki kannski jafnvel í höndina á manninum eftirá. Eða að gera eins og ég og láta hann árita Super Size Me diskinn ykkar. Myndin er líka alveg peninganna virði (bara svo það komi fram). Kannski ekki jafn góð og hans fyrsta en vafalaust betri heldur en sú síðasta.

Ég þakka lesturinn.

Kv.

Tómas Valgeirsson