Bandaríska dagblaðið USA Today hefur birt á vefsíðu sinni fyrstu myndirnar úr 300: Rise Of An Empire, en myndin er framhald ( eða forsaga/prequel ) hinnar geysivinsælu 300 sem þénaði 456 milljónir Bandaríkjadala um allan heim árið 2006.
Myndinni er leikstýrt af Noah Murro, en Zack Snyder, leikstjóri Man of Steel, leikstýrði fyrri myndinni. Hann er einn af handritshöfundum nýju myndarinnar.
Myndirnar sýna svo sem ekki mikið, en þarna má sjá hina vígalegu Spartverja bera að ofan í bardagaham standandi á einhverskonar brú eða báti. Það passar ágætlega við söguþráð myndarinnar en vatn kemur enda mjög við sögu í sjóorrustum myndarinnar.
Á einhverjum tímapunkti hét myndin 300: Battle of Artemesia, en nafnið hefur breyst. Persónan Artemesia er þó enn til staðar í myndinni, en hún er leikin af Eva Green, stúlkunni sem hryggbraut sjálfan James Bond í Casino Royale.
Persónu hennar í 300: Rise Of An Empire er lýst sem „hefnigjarn leiðtogi persneska flotans“ en hún er önnur valdamesta manneskjan hjá Persum á eftir hinum goðumlíka Xerxes. Artemesia hefur harma að hefna gegn Grikkjum þar sem þeir drápu fjölskyldu hennar þegar hún var aðeins barn að aldri.
„Hún vinnur skítverkin fyrir Xerxes. Hún leitar hefnda, og gerir það vel,“ segir Murro um persónuna. „Hún er kynþokkafull, hún er miskunnarlaus og undirförul. Hún hefur allt sem þarf til að drepa karlmenn. Og hún er með sverð. Ég myndi ekki reita hana til reiði.“
Eins og menn muna þá lék Gerard Butler aðalhlutverkið í 300, en hann er nú fjarri góðu gamni. Í hans stað er mættur Sullivan Stapleton, í hlutverki gríska hershöfðingjans Themistokles, en mynd af honum er hér fyrir neðan:
Murro segir um Themistokles: „Hann er örum ristur eftir marga bardaga og mikill stríðsmaður, en á sama tíma er hann stjórnmálamaður,“ segir Murro. „Hann er ekki konungurinn. Hann þarf að stjórna í lýðræðisríki. Þetta er flókin persóna.“
Murro segir eftirfarandi um myndina „[Rise Of An Empire] gerist á löngum tíma á mörgum mismunandi stöðum. Möguleikarnir fyrir hinar sex orrustur er enn meiri með mismunandi staðsetningum og aðferðum .. hinir fáu á móti hinum mörgu er enn til staðar. Þetta eru núna hundruðir á móti hundruðum þúsunda. Þetta er um að berjast gegn mesta herveldi heims með útsjónarsemi og gáfum.“
Myndin verður frumsýnd þann 8. ágúst nk.