Leikstjórinn Danny Boyle ( Trainspotting ) er með nýja mynd í bígerð og hefjast tökur í næsta mánuði þó engir leikarar hafi enn verið ráðnir, eins skrítið og það nú hljómar. Ber myndin heitið 28 Days Later og fjallar um það hvernig vírus sleppur úr breskri rannsóknarstöð. Berst hann með mönnum og dýrum og veldur hann því að þeir sem eru smitaðir eru með stöðugt drápsæði og slátra öllu sem fyrir verður. Ómögulegt reynist að hemja vírusinn og 28 dögum síðar er lítill hópur eftirlifandi manna fastur í London og reynir að verja sig gegn þeim sem smitaðir eru. Brátt kemur þó í ljós að þeir þurfa meira að óttast aðra sem hafa sloppið heldur en þá sem hafa smitast. Búist er við að myndin verði sýnd seint á árinu 2002.

