15 staðreyndir um gerð Jurassic Park: Hataði frægðina eftir myndina

Í gærkvöldi fór fram glápspartí (e. „watch party“) á Jurassic Park gegnum streymi á vegum IGN og Universal en þar fór leikarinn Joseph Mazzello yfir ýmsar sögur á bakvið gerð myndarinnar. Mazzello lék hinn góðkunna Tim Murphy í myndinni, sem lendir í ýmsum ævintýrum með Alan Grant og systur sinni, Lex.

Leikarinn var 9 ára gamall þegar tökur stóðu yfir á Júragarðinum en á seinni árum hefur hann farið með hlutverk í kvikmyndum á borð við The Social Network og Bohemian Rhapsody.

Mazzello hafði meðal annars þetta að segja um reynslu sína og sögurnar á bakvið gerð myndarinnar:

Leikarinn þurfti ekki að fara í áheyrnarprufu fyrir myndina. Spielberg bauð honum hlutverkið sjálfur eftir að hafa séð hann í myndinni Radio Flyer með Elijah Wood.


Leikarinn er mjög þakklátur fyrir það að kvikmyndin sé mjög ólík samnefndri bók. Tim Murphy var eldra systkinið í bókinni en Spielberg vildi víxla því og hafa hann yngri en Lex.


Einn stærsti fellibylur í sögu Hawaii stóð yfir á meðan tökur fóru fram, í september árið 1992.


Mazzello myndaði góð tengsl við Richard Attenborough sem leikur John Hammon. Attenborough leikstýrði Mazzello í kvikmyndinni Shadowlands skömmu eftir tökurnar á Jurassic Park. Báðar myndirnar voru gefnar út á sama ári.


Spielberg lét oft eina töku nægja með Mazzello. Leikarinn segir þetta vera andstæðuna við David Fincher, sem er þekktur fyrir að vilja ótrúlega margar tökur, stundum hátt í hundrað.


Mazzello og Spielberg halda enn góðu sambandi og skiptast á handskrifuðum bréfum.


Spielberg skrifaði meðmælendabréf fyrir Mazzello til að hann kæmist í USC (University of Southern California).


Leikarinn gefur í skyn að Tim Murphy muni bregða fyrir í næstu kvikmynd seríunnar, Jurassic World: Dominion.


Á hverjum tökudegi ruglaði Spielberg í hárinu á Mazzello. Drengur á aldri við Tim og í hans aðstæðum ætti ekki að vera vel greiddur. Leikstjórinn skildi ómögulega hvers vegna förðunardeildin væri alltaf að greiða honum.


Það brotnaði tönn í gríðarstóru líkaninu af grameðlunni þegar hún brýst gegnum þakrúðuna á bílnum. Áhorfendur geta séð tönnina fjúka ef þeir eru duglegir að pása.


Í kjölfar útgáfu og gífurlegrar velgengni myndarinnar hataði leikarinn frægðina. Hann var frekar lokaður krakki að eigin sögn og þótti það reglulega pirrandi hversu margir þekktu hann.


Fyrsti „skjákossinn“ hans Mazzello var með Sam Neill í senunni þar sem Alan reynir að endurlífga Tim.


Mazzello þoldi ekki tökudaginn þar sem Tim og Lex borða eftirréttina, skömmu áður en snareðlurnar finna þau.

Hann sagði alla þessa rétti vera ógeðslega á bragðið.


Spielberg bannaði Mazzello að gráta í senunum þegar krakkarnir mæta snareðlunum. Tók hann það sérstaklega fram við leikarann að Tim ætti að vera hörkutól.


Jeff Goldblum gaf Mazzello sex Bítlaplötur þegar tökum lauk á myndinni.