10 eftirminnilegir drullusokkar úr kvikmyndum

Til er skítmikið af drullusokkum af ýmsum tegundum á hvíta tjaldinu. Þá er undirritaður ekki að tala um illmenni eins og Darth Vader eða Sauron, heldur þessa erkimannfjanda sem eru illkvitnir en svo andskoti eftirminnanlegir að maður annaðhvort elskar þá, hatar þá (eða hvor tveggja samtímis), elskar að hata þá eða/og getur einfaldlega ekki gleymt þeim.

Til að takmarka valið þá tel ég einungis þá með sem fremja alvarlega glæpi í myndunum eins og morð, limlestingar eða eitthvað jafn hræðilegt, annars væri alltof mikið til að velja úr.

10) Gary Oldman sem Norman Stansfield í Léon (1994)

Gary Oldman kann ekki að leika illa. Á hans gulltímabili þá var hann sérfræðingur að leika algera drullusokka og hápunktur þess var án efa Léon. Seinasta áratug hefur Oldman leikið fleiri góðmenni en drullusokka og þó að leikhæfileikar hans hafa engan veginn dvínað, eru hlutverkin ekki alveg jafn eftirminnanleg og back in the 90’s.


9) Kurtwood Smith sem Clarence Boddicker í Robocop (1987)

Pabbinn í That 70’s show er algert fokkin’ skrímsli í þessari mynd. Þökk sé honum þá vil maður ekkert meira en að sjá Robocop fá sína hefnd því það er ómögulegt að hata hann ekki. Ég veit ekki um betri notkun á „secondary“ drullusokk heldur en Clarence Boddicker.


8) Joe Pesci sem Nicky Santoro í Casino (1995)

Af hverju ekki velja Tommy DeVito úr Goodfellas frekar? Ástæðan er sú að í Casino fær persónan (sem er nánast sú sama og í Goodfellas) að þróast meira utan þess að vera alger drullusokkur. En í staðinn fáum við þróaðri drullusokk sem framkvæmir verri voðaverk heldur en nokkurn tímann áður, bara þetta sinn er Joe Pesci alger meistari.


7) Christoph Waltz sem Hans Landa í Inglourious Basterds (2009)

Waltz stal allri myndinni og átti vel skilið öll verðlaunin sem hann vann fyrir frammistöðuna. Hans Landa er stórkostlegur bastarður, en allt of sjarmerandi til að hata, hvernig Waltz náði að gera þetta veit ég ekki.


6) Tim Roth sem Archibald Cunningham í Rob Roy (1995)

Renaissance-teprusnobb er áhættusamt hlutverk; mjög auðvelt að missa sig í tilgerðarlegum ofleik. Roth hinsvegar ofleikur yndislega og með vel skrifuðum díalog skapar drullusokk sem maður dýrkar að hata. Endinn inniheldur einnig eitt besta einvígið, Neeson vs. Roth með sverðum.


5) Heath Ledger sem The Joker í The Dark Knight (2008)

Jokerinn varð að miklu tískufyrirbæri á sínum tíma, en hefði Ledger lifað lengur þá hefði hann líklega orðið einhver virtasti leikari í dag. Geðbilunin er það brjáluð og sannfærandi og það sést að svona frammistaða tekur sinn toll á heilsuna (í bland við fullt af lyfjum). Lifandi eða dauður, þá á þetta hlutverk allt lofið skilið.


4) Geoffrey Rush sem Sir Francis Walsingham í Elizabeth (1998)

Sjitt, þessi gaur. Hann þarf ekki að segja eitt einasta orð, Rush þarf bara að standa og horfa og það lekur af honum kúlið. Þó persónan hans sé ekki illmenni þá er hann langt frá að vera góðmenni og notar ill brögð við öll tækifæri til að þjóna drottningunni. Rush er við að rifna í sundur af karisma.


3) Doug Hutchison sem Percy Wetmore í The Green Mile (1999)

Það er oft í kvikmynd þar sem maður sér svo ömurlega persónu að þú hugsar „þessi á skilið að deyja“, en í þetta sinn vildi ég persónulega kreista lífið úr honum með mínum eigin höndum. Andstyggilegri heigul hef ég ekki séð síðan Percy Wetmore. Sem betur fer þá voru örlög hans jafn ömurleg og persóna hans.


2) Daniel Day-Lewis sem Bill The Butcher í Gangs of New York (2002)

Day-Lewis í sínu besta formi, eins og Rush með Walsingham þá nær Day-Lewis að rústa myndinni með karisma. Þrátt fyrir að vera hrikalega brútal persóna þá er hann ekki hrein illska og það gerir hann mjög áhugaverðan. Day-Lewis bjargaði myndinni frá að vera ómerkilegt miðjumoð, þrátt fyrir að Neeson hafi verið í einu atriði.


1) Rutger Hauer sem John Ryder í The Hitcher (1986)

Svalasti, hættulegasti og versti mannfjandi sem ég hef séð. Hvernig Rutger Hauer fékk engin verðlaun fyrir þetta hlutverk er og hefur lengi verið óskiljanlegt. Hrein illska er ekki beint nógu góð lýsing fyrir hann. Hann er geðbilaður hugnauðgari sem drepur miskunnarlaust, hver einasta sekúnda með honum á skjá er stórkostleg, og þegar hann er ekki á skjánum þá hugsar maður um ekkert annað en forðast hann.