Sam Worthington leikur nú í hverri stórmyndinni á fætur annarri
Avatar leikarinn Sam Worthington hefur tekið að sér aðalhlutverkið í myndinni „Quatermain“, sem er vísindaskáldsöguleg nálgun á söguhetju úr bókmenntunum. Worthington mun einnig þreyta frumraun sína sem framleiðandi í þessu DreamWorks verkefni.
Allan Quatermain var aðalpersónan í ævintýraskáldsögunni Námur Salómons konungs eftir H. Rider Haggard, og í framhaldinu „Allan Quatermain“.
Í fyrstu bókinni fer Quatermain fyrir leiðangri inn í ókönnuð lönd í Afríku til að finna bróður vinar síns, og leita auk þess fjársjóðar sem falinn er í týndum námum.
Útgáfa Dreamworks gerist á tímum þegar mennirnir hafa yfirgefið jörðina og senda Quatermain aftur til Jarðarinnar frá dvalarstað í geimnum.
Á meðal framleiðanda eru Smallville tvíeykið Alfred Gough og Miles Millar, en enginn leikstjóri hefur enn verið ráðinn og er myndin enn á þróunarstigi.
Síðasta mynd Worthingtons var í Clash of the Titans þar sem hann lék Perseus, en sú mynd þénaði 454 milljónir Bandaríkjadala um allan heim. Fyrri mynd hans, Avatar, hefur þénað 2,7 milljarða Bandaríkjadala um heim allan og er tekjuhæsta mynd allra tíma.
Richard gamli Chamberlain og skvísan hún Sharon Stone léku einu sinni í mynd um ævintýri Allan Quatermain.