Mitch Winehouse, faðir söngkonunnar sálugu Amy Winehouse, segir í nýju tísti að hann hati heimildarmyndina Amy.
Mitch hefur löngum verið ósáttur við hvernig fjallað er um dóttur hans í þessari átakanlegu heimildarmynd, sem nú hefur verið tilnefnd til Óskarsverðlauna. Leikstjóri er Asif Kapadia.
Mitch finnst myndin glötuð, og hefur fundist það síðan hann sá hana fyrst.
Eins og þeir sem séð hafa myndina vita, þá er ekki ólíklegt að Mitch sé ósáttur við myndina einnig vegna þess hvernig hann sjálfur birtist þar, en í myndinni er ekki farið leynt með að hann hafi notfært sér frægð dótturinnar óspart í hagnaðarskyni, en Amy sá ekki sólina fyrir pabba sínum, eins og skýrt kemur fram í myndinni.
Í myndinni sést hann m.a. segja að hann teldi Amy ekki þurfa að fara í meðferð árið 2005, sem varð til þessarar frægu línu í lagi Winehouse – Rehab: „If my daddy thinks I´m fine“. Mitch sjálfur segir að upptakan hafi verið klippt úr samhengi.
Í myndinni sést hvernig frægðarsól Amy rís, en jafnframt er þetta sorgarsaga manneskju sem glímdi við eiturlyfja- og áfengisfíkn og lotugræðgi.
„Ég var að heyra að Amy hafi verið tilnefnd til Brit verðlauna fyrir að vera besta breska söngkonan. Við erum mjög stolt af þér elskan,“ tísti Mitch Winehouse á fimmtudaginn síðasta, en Back to Black söngkonan er nú tilnefnd eftir dauða sinn ásamt Adele, Florence Welch, Jess Glynne og Laura Marling.
Just heard Amy nominated for Brit for best British female singer. We are so proud of you baby. Still hate the film though!
— mitch winehouse (@mitchwinehouse) January 14, 2016
Amy Winehouse lést í London 23. júlí árið 2011, 27 ára gömul af áfengiseitrun, en hún var með fimm sinnum meira alkóhól í blóðinu en leyfilegt er að vera með þegar bíl er ekið.
Á Óskarsverðlaununum mun Amy etja kappi við Cartel Land, The Look of Silence, What Happened, Miss Simone? og Winter on Fire: Ukraine’s Fight for Freedom.