Disney kvikmyndafyrirtækið hefur ráðið Independence Day leikarann Will Smith í hlutverk andans í lampanum, í nýrri leikinni mynd um ævintýri Aladdins. Þá hefur Power Rangers leikkonan Naomi Scott verið ráðin í hlutverk Jasmínar prinessu og Mena Massoud verður Aladdin.
Upprunalega teiknimyndin um Aladdin sem frumsýnd var árið 1992, var gamansöm útgáfa af arabískri þjóðsögu um ungan mann sem fékk þrjár óskir frá töfraanda í lampa. Kvikmyndin varð tekjuhæsta mynd ársins og aðallagið í myndinni, A Whole New World, vann Óskarsverðlaunin sem besta lag í kvikmynd. Gamanleikarinn Robin Williams heitinn, fór eftirminnilega með hlutverk andans í teiknimyndinni, en í íslensku útgáfunni fór Laddi á kostum.
Aladdin er aðeins ein af mörgum leiknum myndum sem Disney hefur gert eða hefur ákveðið að gera eftir sígildum teiknimyndum. Nú þegar hafa Cinderella, Maleficent, The Jungle Book og nú síðast Beauty and the Beast ratað á hvíta tjaldið í leikinni útgáfu.
Sagt var frá ráðningu Smith á D23, sem er ráðstefna á vegum Walt Disney félagsins, þar sem aðdáendur fá tækifæri til að kynnast öllu því nýjasta frá fyrirtækinu.