Framhald að stórmyndinni Prometheus hefur verið staðfest og mun Ridley Scott leikstýra verkinu. Handritshöfundurinn Michael Green hefur verið ráðinn til þess að skrifa kvikmyndina, en hann hefur áður skrifað þættina Heroes og kvikmyndina The Green Lantern.
Leikarinn Michael Fassbender mun snúa aftur, en hann fór á kostum í hlutverki sínu sem vélmennið David. Þegar Fassbender var spurður að því hvort hann væri spenntur fyrir framhaldinu þá svaraði hann því að hann bæri mikla virðingu fyrir Ridley Scott og að hann væri heimsklassaleikstjóri.
Leikkonan Sigourney Weaver mun einnig verða hluti af myndinni. Weaver lék aðalhlutverkið í kvikmyndaseríunni Alien, en sagan í Prometheus er sögð gerast á undan atburðarrásinni í þeim myndum. Ekki er vitað hvort hún muni endurtaka hlutverk sitt sem Ripley, en það myndi reynast þrautinni þyngri því þá þyrfti hún að leika tæplega 40 ára yngri útgáfu af sjálfri sér.
Prometheus var að hluta til tekin upp hér á landi og er því spurning hvort Scott og hans fylgdarlið muni taka upp hér á nýjan leik.