Walken í Skógarlíf

walkenBandaríski leikarinn Christopher Walken mun leika í nýrri mynd um skógardrenginn Mowgli. Um er að ræða endurgerð á hinni vinsælu teiknimynd The Jungle Book, eða Skógarlífi, eins og bókin heitir á íslensku.

Walken mun ljá apanum Louie rödd sína, en hann er konungur apanna í skóginum og fetar hann þar með í fótspor Louis Prima sem talaði fyrir apann í upprunalegu myndinni, sem var gerð árið 1967.

Walken bætist við her frægra leikara sem munu ljá myndinni rödd sína, þar má helst nefna Ben Kingsley, Lupita Nyong’o, Idris Elba og Scarlett Johansson.

Myndin mun verða leikin ásamt tölvugerðum persónum, en vinsælt hefur verið á síðustu árum að gera leiknar myndir eftir þekktum ævintýrum og barnasögum.

The Jungle Book er safn smásagna og var fyrst gefið út árið 1894, en flestar sögurnar fjalla um Mowgli, ungan dreng sem er alinn upp af úlfum og á vini eins og björninn Baloo og pardusdýrið Bagheera. Einnig kemur við sögu tígrísdýrið grimma Shere Khan.

louie

The Jungle Book var síðasta myndin sem Walt Disney sjálfur framleiddi, en hann lést á meðan á framleiðslu myndarinnar stóð.