Þýski leikstjórinn Roland Emmerich hefur ekki gefið upp vonina að þriðja Independence Day-bíómyndin verði að veruleika. Framhald hinnar stórvinsælu innrásarmyndar frá 1996 leit dagsins ljóst heilum tuttugu árum síðar og hlaut bæði slakar viðtökur frá áhorfendum jafnt sem gagnrýnendum og dræma aðsókn miðað við væntingar framleiðenda.
Þrátt fyrir litla eftirspurn er Emmerich vongóður um næstu lotu enda var framhaldsmyndin, Independence Day: Resurgence, hönnuð til að vera miðjumyndin í þríleik – sem hann vonast til að klára undir Disney-merkinu.
Þegar stórrisarnir hjá Disney festu kaup á kvikmyndaverinu 20th Century Fox í byrjun árs 2019 hefur framtíðin verið óljós með ýmsa myndabálka sem til stóð að þróa áfram, en á meðal verkefna kom til greina að framleiða nýja Independence Day-mynd. Emmerich sagði í viðtali við CinemaBlend að hann væri bjartsýnn á þriðja eintakið, þó engar samningaviðræður hafa enn farið fram.
„Ég var búinn að ræða þetta við Fox, en eftir kaupin var ég viss um að þessu væri lokið. En ég veit það ekki, sjáum til. Þetta gæti gengið. Hollywood er afar furðulegt þessa dagana og ég hef góða tilfinningu fyrir því að Disney hafi áhuga að halda áfram með þetta. Þau eru mjög hrifin af svona seríumyndum þar,“ segir Emmerich.
Will Smith eyðilagði allt
Það kemur annars vegar ýmsum aðdáendum eflaust á óvart hvað leikstjórinn er áhugasamur um aðra Independence Day-mynd, enda lofaði hann sjálfum sér því fyrr á sínum ferli að leggja aldrei í framhaldsmynd, hvað þá tvær. Í nóvember 2019 tjáði hann sig í samtali við Yahoo! um óánægju sína með útkomuna á Resurgence. Þegar undirbúningur myndarinnar hófst stóð til hjá leikaranum Will Smith að endurtaka sitt hlutverk. Á miðri leið hætti hann við og valdi DC-kvikmyndina Suicide Squad í staðinn. Smith var einn af örfáum leikurum úr upprunalega hópnum sem sagði á endanum pass við Resurgence.
Segir leikstjórinn að brottför Smiths hafi leitt til þess að myndin hafi komið allt öðruvísi út en ætlað var og hafi orðið verri fyrir vikið.
„Ég hefði átt að hætta við gerð myndarinnar vegna þess að við vorum með miklu betra handrit,“ sagði Emmerich. „Síðan breyttist allt og ég þurfti að púsla saman öðru handriti á mettíma. Ég hefði átt að afþakka þar sem ég endaði á því að gera það sem ég ætlaði lengi að forðast: framhald.“