Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hafa valið kvikmyndina Vonarstræti sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári. Vonarstræti mun því keppa fyrir Íslands hönd um Óskarsverðlaunin fyrir bestu kvikmyndina á erlendu tungumáli.
Vonarstræti hlaut meirihluta atkvæða Akademíumeðlima en kosningu lauk á miðnætti í gær. Kosningin fór fram rafrænt og kosið var á milli þeirra fjögurra íslensku kvikmynda sem uppfylltu það skilyrði bandarísku kvikmyndaakademíunnar að hafa verið frumsýndar á tímabilinu 1. október 2013 til 30. september 2014.
Vonarstræti fjallar um óvægna fortíðardrauga, þöggun, sársauka og syndaaflausn. Áhorfendur fá að fylgjast með þremur ólíkum persónum fóta sig í íslensku samfélagi á árunum rétt fyrir hrun og því hvernig örlög þeirra fléttast saman á áhrifaríkan máta.
Myndinni leikstýrir Baldvin Z, sem skrifar einnig handritið ásamt Birgi Erni Steinarssyni. Myndin er framleidd af Ingvari Þórðarsyni og Júlíusi Kemp hjá Kvikmyndafélagi Íslands.